Remove Ads

Icelandic Bible

Font


Síðari bók konunganna 16



1 Á seytjánda ríkisári Peka Remaljasonar tók ríki Akas, sonur Jótams Júdakonungs.
2 Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, Guðs hans, svo sem Davíð forfaðir hans,
3 heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga. Hann lét jafnvel son sinn ganga gegnum eldinn og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.
4 Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á fórnarhæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.
5 Í þann tíma fóru þeir Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason Ísraelskonungur upp til Jerúsalem til þess að herja á hana. Settust þeir um Akas, en fengu eigi unnið hann.
6 Um þær mundir vann Resín Sýrlandskonungur Elat aftur undir Edóm og rak Júdamenn burt frá Elat, en Edómítar komu til Elat og hafa búið þar fram á þennan dag.
7 Akas gjörði sendimenn á fund Tíglat Pílesers Assýríukonungs og lét segja honum: "Ég er þjónn þinn og sonur! Kom og frelsa mig undan valdi Sýrlandskonungs og undan valdi Ísraelskonungs, er ráðist hafa á mig."
8 Og Akas tók silfrið og gullið, sem var í musteri Drottins og fjárhirslum konungshallarinnar, og sendi Assýríukonungi að gjöf.
9 Assýríukonungur tók vel máli hans. Síðan fór Assýríukonungur herför til Damaskus, tók borgina herskildi og herleiddi íbúana til Kír, en Resín lét hann af lífi taka.
10 Akas konungur fór nú til Damaskus til fundar við Tíglat Píleser Assýríukonung og sá þá altarið, er var í Damaskus. Sendi þá Akas konungur Úría presti uppdrátt og fyrirmynd af altarinu, er var alveg eins og það.
11 Og Úría prestur reisti altarið. Gjörði Úría prestur með öllu svo sem Akas konungur hafði sent boð um frá Damaskus, áður en hann kom frá Damaskus.
12 Þá er konungur kom frá Damaskus og leit altarið, þá gekk hann að altarinu og
13 fórnaði á því brennifórn sinni og matfórn, dreypti dreypifórn sinni og stökkti blóði heillafórna sinna á altarið.
14 En eiraltarið, er stóð frammi fyrir Drottni, færði hann þaðan sem það var fyrir framan musterið, milli nýja altarisins og musteris Drottins, og setti það að norðanverðu við altarið.
15 Og Akas konungur lagði svo fyrir Úría prest: "Á stóra altarinu skalt þú fórna morgunbrennifórninni og kvöldmatfórninni, brennifórn konungs og matfórn hans, brennifórnum allrar alþýðu í landinu og matfórnum hennar og dreypifórnum. Og öllu blóði brennifórnanna og öllu blóði sláturfórnanna skalt þú stökkva á það. En um eiraltarið ætla ég að skoða huga minn."
16 Og Úría prestur gjörði allt svo sem Akas konungur hafði boðið.
17 Akas konungur lét og brjóta speldin af vögnum kerlauganna og tók kerin ofan af þeim. Þá lét hann og taka hafið ofan af eirnautunum, er undir því stóðu, og setja á steingólfið.
18 Og hvíldardagsganginn, er tjaldaður var, og þeir höfðu gjört í musterinu, og ytri konungsganginn tók hann burt úr musteri Drottins til þess að þóknast Assýríukonungi.
19 Það sem meira er að segja um Akas og það, er hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.
20 Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.